Leita í fréttum mbl.is

Unglegur, fallegur og fjarskalega vel þroskaður hópur!

Jubilantes041

Fólkið sem brautskráðist sem stúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri 17. júní 1982 er aldeilis sérlega skemmtilegur hópur. Hafi einhver efast sannaðist þetta þegar haldið var upp á 25 ára stúdentsafmælið, 14., 15. og 16. júní.

Póstar hafa flogið á milli manna undanfarna daga, undirrituðum a.m.k. borist sumir, og ekki ber á öðru en fólk sé afar ánægt með það hvernig til tókst. Og það sem ekki er síður ánægjulegt er hve það er almenn skoðun hversu allir, strákar og stelpur, hafa ÞROSKAST VEL! Gott ef flestir þykja ekki glæsilegri en fyrir 25 árum.

Vegna fjölda áskorana verður þessi síða opin og vonandi virk um ókomna tíð - í það minnsta þar til við fögnum 60 ára stúdentsafmælinu árið 2042... Ég hvet alla sem tóku ljósmyndir í bekkjarpartýjum 14. júní, óvissuferðinni 15. júní eða á hátíðinni að kvöldi 16. júní, að senda mér sýnishorn - netfangið er skapti@mbl.is - og ég birti myndirnar hér á síðunni. Ítreka svo að bæði er hægt að tjá sig í gestabókinni eða senda mér pistil og ég birti.

Til upplýsingar má geta þess að ég stefni að því að fá ekki mígrenikast í næstu óvissuferð.

Bestu kveðjur til ykkar allra.

Skapti

Söngsalur 2007


Nýjasta nýtt, vegna óvissuferðar

Óvissuferðarstjórinn Anna Jóna hefur hvatt sér hljóðs. Hún tekur nú til máls, á svipuðum nótum og í gær en einhverjar upplýsingar eru ögn nákvæmari:

-          makar þurfa ekki(en eru að sjálfsögðu velkomnir ef þeir vilja) að mæta fyrr en kl 13:00 fyrir ofan Möðruvelli (kannski óþarfi að þeir þurfi að bíða eftir okkur í heimsókn hjá Jóni Má og myndatöku)

-          þar sem við borðum kvöldverð og stígum dans, verður hægt að kaupa léttvín og bjór. Ef fólk vill eitthvað sterkara verður að hafa það meðferðis. Við hvetjum alla til að hafa nóg af drykkjarföngum meðferðis, nóg er nú plássið í rútunni. Hvað er einfaldara en að hafa kæliboxið með sér fullt af köldum bjór, hvítvíni o.s.frv. ?  Nú rauðvínsbeljurnar þurfa ekki einu sinni kælibox..

-          við förum líka á einn stað í ferðinni þar sem við verðum að kaupa áfengið á staðnum (ef við ætlum að drekka áfenga drykki þar, megum ekki hafa þá með okkur inn)

-          brottför úr óvissuferð um kl.01:00

      -     dansskórnir eru ómissandi og alveg nauðsynlegt að hafa þá meðferðis

 

     -      Sólgleraugu, myndavél.    Klæðnaður: ekki mælt með pinnahælum en þó engum fjallgönguskóm. Erum ekki að fara í safari en verðum að velkjast í rútu í þó nokkra tíma með viðkomum á ýmsum stöðum. Það er allt í lagi að vera huggulegur til fara þó við séum ekki í árshátíðarfatnaði. Það verður stiginn dans um kvöldið.

Elskurnar mínar, hvað get ég sagt meira? Nú höfða ég til ykkar heilbrigðu skynsemi og leyfi ykkur að ákveða nánar ferðadressið!

Hafið endilega með ykkur skjólgóða utanyfir-flík því maður veit aldrei hvernig veðrið er á Íslandi!!

Umfram allt; við ætlum að hafa það skemmtilegt saman og því biðjum við alla um að hafa góða skapið meðferðis (skilja hitt eftir heima) og BROSA því það er svo gaman saman.

Einkunnarorð ferðarinnar eru: GAMAN SAMAN!!

Hlakka til að sjá ykkur öll,

f.h. ferðanefndar,

Anna Jóna 6.A.


Partýin í kvöld

Þessar upplýsingar hafa borist. 

6. A - Hjá Önnu Jónu í  Kambsmýri 10 kl. 20.30.

6. G - Grænamýri 14, hjá Kristínu Sigurveins.

6. X - Mánahlíð 10, hjá Reyni Eiríks.

6. T - Helgamagrastræti 22, hjá Árna Gunnari og Agnesi.


Áríðandi tilkynning vegna óvissuferðar

Það skal viðurkennt strax að fyrirsögnin  er svona bara til þess að fanga athygli ykkar.

En Anna Jóna Guðmundsdóttur, yfiraðalóvissufararskipulagsstjóri, vill koma eftirfarandi á framfæri:

1. Makar þurfa ekki að mæta fyrr en kl 13:00 fyrir ofan Möðruvelli  (óþarfi að þeir þurfi að bíða eftir okkur í heimsókn hjá Jóni Má og myndatöku).

2. Þar sem við borðum kvöldverð og stígum dans, verður hægt að kaupa léttvín og bjór. Ef fólk vill eitthvað sterkara verður að hafa það meðferðis. Við hvetjum alla til að hafa nóg af drykkjarföngum meðferðis, nóg er nú plássið í rútunni. 

3. Við förum líka á einn stað í ferðinni þar sem við verðum að kaupa áfengið á staðnum (ef við ætlum að drekka áfenga drykki þar; megum ekki hafa þá með okkur inn).

4. Brottför úr óvissuferð um kl. 01:00.

Skilið?

Með Önnujónukveðju,

Skapti


Óvissuferðin á föstudaginn

Aðeins hefur bæst við dagskrána þann 15. júní. Við mætum í skólaheimsókn til Jóns Más skólameistara kl 12:00. Strax á eftir verður myndataka af hópnum í Stefánslundi og kl 13:00 leggjum við af stað í óvissuferðina.  Mætum öll með góða skapið og höfum gaman saman!! 

 

Föstudagurinn verður sem sagt svona:

Mæting kl. 12.00 í aðalanddyri MA (við bláturninn – komið að vestan, hjá heimavist) 

Heimsókn undir handleiðslu Jóns Más skólameistara 

Myndataka í Stefánslundi  

Brottför um kl. 13.00 

Ferðinni heitið út í óvissuna 

Heimkoma óviss 

 

Eitthvert nesti og sýnishorn af drykkjarföngum svo og aðgöngumiðar ýmiss konar eru inni í gjaldinu en sumir vilja eflaust meira nesti og er sjálfsagt að hver og einn beri með sér ölföng við hæfi. Munið viðeigandi föt og sundföt, dansskó, góða skapið, sólgleraugu, diska með eitístónlist og fleira sem ykkur dettur í hug.

Sjáumst svo eldhress!

Jæja...

Óðum styttist í þriggja daga hátíðina sem allir hafa beðið eftir í 25 ár. Ég hef grun um að einhverjir eigi enn eftir að skrá sig í veisluna að kvöldi 16. júní - aðalpartýið; vinsamlega drífið í því á heimasíðu Bautans. www.bautinn.muna.is og síðan verður hægt að nálgast miðana og greiða fyrir þá í Höllinni 15. eða 16. júní. Okkar glæsilegi árgangur gerir það væntanlega 16. júní vegna þess að daginn áður verðum við í óvissuferðinni.

 

Eru ekki allir í stuði?! Dísa og Svana - hvað með ykkur? Við þurfum eiginlega að stilla saman úrin svo þið getið skálað við okkur á hárréttum tíma 14., 15. og 16.


Blómsveig við sólskinsmælinn?

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í bréfi til ritstjóra þessa virta vefmiðils ykkar að sól hafi skinið látlaust frá morgni til kvölds á Akureyri þann 17. júní 1982. Þann dag hafi verið bjart sólskin í höfuðstað hins bjarta norðurs (mín orð...) í 17,4 klukkustundir! Ekki nema von að manni hafi þótt heitt í kirkjunni við útskriftina. Og Einar kemur með viðeigandi hugmynd - sjá neðst í þessari grein.

Einar segir jafnframt að vorið 1982 hafi verið fremur kalt “en hæglátt og fénaður á fullri gjöf N-lands fram í maílok og kýr ekki látnar út í Eyjafirði fyrr en um svipað leyti og nýstúdentum var sleppt úr sinni prísund.  Þó gerði nokkra góða daga framan af júní og komst hitinn á Akureyri í 19,4 stig þ. 6. júní en síðan kólnaði aftur og 13. til 15. var skítakuldi. Á sjálfan útskriftardaginn var veðrið... ja..þetta hljótið þið nú að vita og muna Skapti betur en það sem lesa má í gulnuðum bókum í kjallara Veðurstofunnar.  En það bar þó til tíðinda þennan júnímánuð árið 1982 að aldrei frá upphafi mælinga hafði verið svo sólríkt í júní á Akureyri og voru sólskinsstundir 264 í allt.  Ekki skein þó sólin skærar en einmitt þann 17. hvort sem þið trúið því eða ekki, látlaust frá morgni til kvölds eða í 17, 4 klst (bjart sólskin)  Þið ættuð nú af því tilefni að votta sólskinsmælinum virðingu ykkar útskriftarhópsins.  Hann stendur við Krossanesbrautina og er í umsjá lögreglunnar eins og þú veist.  Blómsveigur við stólpann sem mælirinn stendur á væri  t.d. passandi !! "

Einar spáir í djammveðrið

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur er gestapenni dagsins. Ritstjóri vefmiðils þessa bað hinn kunna veðurspeking að gera tilraun til þess að rýna inn í framtíðina og segja okkur hvernig virðar á okkur festivalsdagana þrjá, 14.-16. júní.  Einar svarar:   "Spurning er þessi: mun S-áttin með allt að 20 stiga hita á Akureyri hita halda frá á 14-17. júní? Allavegana klárt að fram eftir [þessari] viku verður draumatíð í bænum við Eyjafjörðinn. Það má segja sem svo að mun meiri líkur séu á S eða SV átt með brakandi blíðu 14. og 15. en N-átt með úrkomu og kulda. Hins vegar er ýmislegt sem bendir til þess að veðrabrigði gætu verið í vændum 17. júní eða daginn áður. Þá að hann halli sér út í norðrið með nepju og hragglanda."

Perlur hafsins - Upp til fjalla

Matseðill MA-hátíðarinnar að kvöldi 16. júní hefur borist frá Bautanum. Boðið verður upp á Perlur hafsins í forrétt, aðalréttinn kalla Bautamenn Upp til fjalla og í eftirrétt verður Tiramisu terta, sem er ítölsk ostaterta, sérlega ljúffeng, ef minnið svíkur mig ekki. 

Nánar um matseðilinn í hátíðardagskránni hér til hliðar - smellið á HÁTÍÐIN Í HÖLLINNI efst vinstra megin.


Miðasala hafin á heimasíðu Bautans

Miðasala á MA hátíðina í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. júní er hafin á heimasíðu veitingahússins Bautans, www.bautinn.muna.is þar sem gefið er upp nafn, kennitala, hvaða afmælisárgangi viðkomandi tilheyrir og fjöldi miða sem sá vill kaupa.

Fleiri myndir

Krít

Var að bæta slatta af myndum í Albúmið "Við þá" - úr útskriftarferðinni til Krítar, frá Dimmisso og undirbúningi busavígslunnar haustið 1981. Hér er eitt sýnishorn; Sossa og Lalli - Soffía Ófeigsdóttir og Lárus Blöndal - í veislu á Krít. Ég trúi því varla, en sé þó ekki betur en þau séu þarna með hákarlsbita á göfflunum. Er líklega farinn að sjá illa.

Tekið skal fram enn er um að ræða gripi úr fjársjóði Írisar Ingvarsdóttur. Lýsi hér með eftir fleiri myndum annars staðar frá.


25 dagar

Mér reiknast svo til að nú séu 25 dagar þar til 16. júní rennur upp bjartur og fagur. Dagskrá MA-hátíðarinnar í Höllinni er að mestu tilbúin og verður birt hér á síðunni í dag - efst vinstra megin undir því frumlega heiti DAGSKRÁIN 16. JÚNÍ, þar sem allar upplýsingar um matseðil, skemmtiatriði, verð og slíkt eiga að koma fram. - Með baráttu- og tilhökkunarkveðjum, Skapti.

34 dagar

Nú eru 34 dagar þar til 14. júní rennur upp. Vonandi bjartur og fagur.

Ég sé fyrir mér vinskap. Kannski líka vínskáp.


Ógleymanlegur fróðleikur

Krít 10

Margir einstaklega áhugaverðir fyrirlestrar voru í boði á Krít haustið 81 og fróðleiksþyrstir MA-ingar hlýddu jafnan á með aðdáunarverðri athygli. Þarna er verið að lýsa þróun gróðurfars eyjarinnar frá öndverðu og hrein unun að sjá gleðina og áhugann sem skín úr augum hinna íslensku gesta. Hermt er að Erlingur Jóhannsson muni endursegja fyrirlesturinn að kvöldi 14., 15. og 16. júní næstkomandi. Honum til aðstoðar verður Torfi Fjalar Jónasson.

Reynt var að fá leiðsögumanninn sem heiðursgest í óvissuferðina 15. júní en í ljós kom að konan er öll. Ólöf Jónsdóttir drap hana með augnaráðinu, fáeinum andartökum eftir að myndin var tekin.

Úr skúbbmyndasafni Írisar Ingvarsdóttur.


Höfuðföt

Krít 8

Sólin var svo heit á Krít um árið að sumir þurftu þrjá hatta til þess að skýla á sér hausnum, meira að segja inni í rútunni. Ég man ekki í svipinn hvaðan Larri er en Ólöf er úr Goðabyggðinni og greinilega ýmsu vön, enda alltaf sól þar.

Úr skúbbmyndasafni Írisar Ingvarsdóttur.


Fjör í den

Partí 1

Mér sýnist á svip Finnboga forstjóra að hann hafi í þessu partíi 1982  séð fyrir lækkun kílóverðs á ufsa mörgum árum síðar og sé ekki skemmt. Eða kannski er honum einmitt skemmt. Stelpunum virðist standa á sama.

Úr skúbbmyndasafni Írisvar Ingvarsdóttur.


Krúttleg

Dimmissio 1

Þau hafa ekki mikið breyst, Dídí og Kiddi. Þessi er úr myndasafni Írisar Ingvars, sem áður hefur verið getið á þessum vettvangi en sannast nú loks að er til. Myndin er tekin þegar fólk var puntað fyrir Dimmissio. Sennilega Sveina lengst til hægri, reyndar næst lengst til hægri, sú sem nær upp fyrir myndina...


Að kaupa miða

Nú er í vinnslu sérstakt Bautasíðugerðarmannamiðapöntunarkerfi - sem sagt, á heimasíðu Bautans - www.bautinn.is - verður komið upp idiotproof sýstemi til þess að skrá sig í veisluna 16. júní og kaupa miða. Er það gert til hagræðingar fyrir þá sem standa að veislunni og til þess að létta undir með þeim sem koma að málum síðar meir.

Vonandi er ég ekki að ljúga neinu. Þetta á að komast í gagnið fljótlega.


36 dagar

Nú eru 36 dagar þar til 14. júní rennur upp. Vonandi bjartur og fagur.

Ég sé fyrir mér vinskap. Kannski líka vínskáp.


Þyrnirós vöknuð

Ritstjórinn er kominn í leitirnar. Jibbí!

Árgangurinn er að vakna, sýnist mér enda aðeins rúmur mánuður til stefnu. Líf færist í gestabókina á ný og einhverjir virðast sakna undirritaðs. Þar sem það hefur ekki gerst lengi er ekki annað hægt en bregðast við. Lofa því að halda áfram að bulla eitthvað hér á síðunni og setja inn myndirnar frá Írisi. Þær eru bráðskemmtilegar, margar hverjar.

Hvet fleiri til að senda mér myndir og pistla. Allir geta skrifað í gestabókina - reyndar var kvartað yfir því við mig um daginn að hún virtist lokuð öllum nema máladeildinni og Dísu víólu! Svo á alls ekki að vera. Ef einhver er í vandræðum með að komast þar inn endilega látið mig vita - skapti@mbl.is og vilji menn skrifa pistil til birtingar hér á síðunni sjálfri forsíðunni endilega sendið mér þau skrif.


Næsta síða »

GAMAN SAMAN

Stúdentar frá MA 1982
Stúdentar frá MA 1982

Heimasíða MA stúdenta 1982, stofnuð vegna 25 ára stúdentsafmælis 17. júní 2007.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband