Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Ellin, fegurðin og ríkidæmið

Tryggvi Gíslason, okkar gamli meistari, sagði margt skynsamlegt í viðtali sem ég tók við hann og birtist í Morgunlaðinu sunnudaginn 15. júní 2003, tveimur dögum áður en hann brautskráði síðustu nemendur sína frá MA. Í viðalinu nefndi skólmeistari t.d. andstæður og samhengi hlutanna. "Stundum er sagt að fólk vilji að allt sé skemmtilegt; þess er krafist að fólk sé ungt, fallegt og ríkt. Við erum hins vegar ekki alltaf ung, við verðum gömul; það er eðlilegt að sá sem lifir lengi verði gamall.

Unga fólkið verður að muna eftir því; þó að það eigi auðvitað ekki að vera upptekið af því að það verði gamalt þá má það ekki gleyma því, og mestu menningarþjóðir, bæði austur í Asíu og jafnvel í hinni fornu Afríku, allar þessar gömlu menningarþjóðir heimsins hafa byggt á þessari grundvallarkenningu að bera virðingu fyrir þeim sem eldri eru. Því megum við ekki gleyma, finnst mér."

Hann segir erfitt að vera ungur, en þó enn erfiðara að verða gamall, lasburða, einmana og yfirgefinn "og svona menningarþjóð eins og Íslendingar mega ekki gleyma gamla fólkinu."

Ég held Tryggvi hafi ekki verið með 25 ára júbílanta  sumarið 2007 sérstaklega í huga með þessum orðum enda herma heimildir að sá árgangur sé enn bæði ungur, fallegur og ríkur. Mér finnst þó rétt að benda á ummælin ef einhver vill hefjast handa þegar í stað við að undirbúa ellina, sem hugsanlega birtist óvænt eftir að 25 ára partýinu lýkur, einhvern tíma þjóðhátíðardaginn 17. júní. 


90% mæting, eða er hún 100%?

Nú þegar hafa tíu manns tekið þátt í könnuninni hægra megin á síðunni. Níu hafa valið fyrsta kostinn - ætla "Að sjálfsögðu!" að koma á stúdentsafmælið, en einn svarar "Já". Þar sem ég er úr máladeild lít ég á þetta sem 90% mætingu. Ég gef mér hins vegar að Reynir telji mætinguna 100%.

Ég hvet fólk svo til þess að tjá sig hér á heimasíðunni. Veglegar viðurkenningar eru í boði fyrir þá sem nenna að skrifa: tíundi hver fær að launum einn dans við ritstjóra síðunnar að kvöldi 16. júní...


Vessgú: ma1982@tpostur.is

FRÉTTASKÝRING

Eftir Skapta Hallgrímsson ritstjóra

Tölvusérfræðingur heimasíðunnar, Reynir Eiríksson, hefur græjað netfang sem við getum öll notað í aðdraganda hátíðarinnar, netfangið er ma1982@tpostur.is og virkar einfaldlega þannig að ef póstur er sendur þangað á hann að skila sér til allra sem þegar eru á netfangalista okkar.

Svona er nú heimurinn skemmtilegur. Ég skrifaði Stóru ritgerðina sem svo var kölluð, en var kannski ekkert rosalega stór, á ritvél vegna þess að þá var tölvan ekki komin til Akureyrar. Og kannski ekki einu sinni til landsins, nema kannski einkatölva Háskóla Íslands sem geymd var í tveimur eða þremur herbergjum vegna þess hve stór hún var.

Guði sé lof fyrir tæknina. Og Reyni, annars hefði ég aldrei getað skrifað þessa fréttaskýringu því án hans hefði ma1982@tpostur.is ekki orðið til.


Fem og tyve!

Illskiljanlegt, en satt. Liðin eru 25 ár frá því við skoppuðum út í sumarið 82 með hvíta kolla. Því ber að fagna og það gerir auðvitað hver á sinn hátt - en (vonandi flestir) á sama stað og sama tíma. Þann 14. júní kemur hver bekksögn saman einhvers staðar í heimahúsi í höfuðstað Norðurlands, 15. júní verður farið í óvissuferð með öllu tilheyrandi og að kvöldi 16. júní verður haldin mikil veisla, eins og hefð hefur skapast fyrir, í íþróttahöllinni. Ef einhver er ekki viss þá er þessi höll stóra húsið norðan við heimavistina! Þar verðum VIÐ í aðalhlutverki enda sjá 25 ára stúdentar um herlegheitin.

Ég vona að allir séu í góðri æfingu og tilbúnir í slaginn.

Hér verða fluttar fréttir af undirbúningi hátíðarinnar og hvers konar upplýsingar, kveðskapur, gamlar sögur og eitthvað þaðan af verra, verður birt í snatri ef einhverjir vilja senda mér slíkt. Netfangið er skapti@mbl.is og svo vil ég að sem flestir skrifi athugasemdir við hvaðeina sem hér verður að finna, svo og eitthvað skemmtilegt í gestabókina.

Hvernig væri að fólk upplýsti hvað það hefur fengist við þennan fljótliðna aldarfjórðung? Hvar hafið þið verið? Hvar eruð þið? Er einhver hættur að reykja? Einhver byrjaður að reykja? Einhver fitnað, grennst, giftst? Gestabókin bíður...

Meira síðar.


GAMAN SAMAN

Stúdentar frá MA 1982
Stúdentar frá MA 1982

Heimasíða MA stúdenta 1982, stofnuð vegna 25 ára stúdentsafmælis 17. júní 2007.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband