Leita í fréttum mbl.is

"A table for sex, plís" - annar hluti

Krít 3

Dísa víóla kom upp um sig sjálf með athugasemd í gestabókinni. Hér er svo myndin - Úlli fararstjóri, Ólöf, Dísa, Sólveig, Íris og Inga Halla. Ég geri ráð fyrir því að þjónninn sé sá sem sem tók við pöntuninni um borðið. Vona að hann hafi ekki skilið ensku. Takið eftir slaufunni, mér sýnist þetta vera sú sem ég var með á fermingardaginn. Og takið eftir því - kannski ósköp venjuleg tilviljun - að lang stærsta flaskan á borðinu er fyrir framan Dísu!


"A table for sex, plís"

Staðurinn er Krít, þetta er haustið 1981. Lífsglöð stúlka frá litlum bæ við fallegan fjörð á Íslandi segir við saklausan þjón á veitingastað eitt kvöldið: "A table for sex, plís". Hvað stúlku dettur svona lagað í hug? Koma margar til greina? Ég held ekki.

Engin verðlaun eru veitt fyrir rétt svar við spurningunni en við hæfi að taka fram strax að umræddur víóluleikari var ekki í máladeild... Mynd af sexmenningum (!) verður birt hér innan tíðar. Umsjónarmaður síðunnar og Íris Ingvarsdóttir flettu nefnilega í morgun nokkrum myndaalbúmum Írisar frá því í den tid og eftir ítarlega ritskoðun voru fáeinar myndir úrskurðaðar birtingarhæfar og skannaðar á tölvutækt form.

Myndum úr safni Írisar verður skellt hér inn á síðuna á næstu dögum og enn skal ítrekuð hvatning til ykkar allra um að leita að gömlum myndum og senda ykkar einlægum.

MA1982 síðan er sem sagt vöknuð til lífsins á ný. Nú verður ekki aftur snúið.


Lítið hefur breyst . . .

Þvílík tilviljun. Mér barst önnur gömul mynd og er líka á henni! Ekki kenna ritstjóranum um þetta, leitið frekar í gömlum hirslum og finnið myndir sem eru ekki af mér.

Veiga og Skapti

Þessi er tekin daginn sem við dimmiteruðum. Held ég hafi a.m.k. ekki mætt í náttfötum í skólann nema þann dag. Þori samt ekkert að fullyrða um það. Lítið hefur breyst á þessum 25 árum eins og sjá má. Veiga segist reyndar hætt að klæðast strigapokum en hefur ekki elst nema um hálfan mánuð - sýndist mér á fundi á Bláu könnunni um daginn - en ég hef þó fríkkað töluvert með aldrinum. Og ég er hættur að leika á blokkflautu.


Sjötti A hjá Svönu

svana

Það er vel við hæfi að fyrsta gamla myndin hér á síðunni sé úr geymslu 6. A. Þó ekki væri nema til þess að byrja fremst í stafrófinu. Þessi er tekin þegar við sóttum Svönu heim á sjúkrabeð, eins og stóð í skilaboðum með myndinni frá Stefáni Þór. Ekki man ég hvað Svana var að gera í því beði og veit ekki betur en hún hafi blómstrað síðan.

Mig grunar að Valur Eyþórsson hafi tekið myndina. Gefið því gaum hve þetta er laglegur hópur.


Hver á gamlar myndir?

Vond ljósmynd segir örugglega meira en 100 orð.

Á ekki einhver gamlar og flottar eða ljótar eða vondar eða spaugilegar myndir síðan úr MA, á tölvutæku formi? Berist útgáfufélaginu slíkir gullmolar verða þeir umsvifalaust sett inn í myndaalbúmið "Við þá" sem útbúið hefur verið hér á síðunni. Þar er reyndar líka til albúmið "Við nú" ef svo ólíklega vildi til að einhver hefði áhuga á að senda nýja mynd af sér...

Og ef einhver vill skrifa pistil endilega senda þá líka til mín. Þeir birtast um leið og búið verður að ritskoða!


Hinn eini sanni tónn?

FRÉTTASKÝRING

Eftir Skapta Hallgrímsson ritstjóra

Dísa víóla

Spurt er, hver er þessi Dísa? Og sjálf spyr hún: Í hvaða bekk var ég? (Sjá margumrædda "Gestabók" vinstra megin á síðunni, þar sem allt er að gerast...)

Allt er þetta hið einkennilegasta mál.

Herdís Jónsdóttir úr Spítalaveginum, Dísa fiðla - sem spilar reyndar alls ekki á fiðlu á síðari árum, heldur víólu, og hefur kannski alltaf gert - lýsti því sem sagt yfir á dögunum í tölvupósti til árgangsins að hún yrði ekki í höfuðborg hins fagra norðurs 17. júní. Þar ljóstraði hún jafnframt upp þeirri staðreynd, sem virðist skelfa mann og annan, að hún skrifaði dagbækur "ÖLL MA-árin mín og þar stendur nú sitthvað um suma!!" svo vitnað sér orðrétt í hótunarfréfið frá Hollandi.

Hún kveður síðan með spurningu, segist hafa verið í 6. T en efast; var það ekki ábyggilega 6. T? Eða var ég í X-inu? "Vill einhver kannast við það?"

Enginn hefur gefið sig fram í því skyni að segja Dísu í hvaða bekk hún var, en eftir töluverða heimildaleit er hið sanna komið í ljós: Herdís Anna Jónsdóttir, var nemandi á Náttúrufræðideild - ekki spyrja mig hvers vegna - og skráð í 6. T.

Stúlkunni er svo lýst í Carmínu, anno 1982: "Eitt af megineinkennum Dísu er stöðugur sónn sem fylgir henni hvert sem hún fer. Sumir telja þetta hinn eina sanna tón en þrekmiklir kunningjar segja að stúlkan þjáist af alveg óskaplegri talþörf og af því stafi sónninn."

Sem sagt; þetta er hún! Og á myndinni er Dísa, þessi í röndóttu sokkunum, að fremja tónlist ásamt manni sínum, Steef, á leikskóla á Akureyri fyrir nokkrum misserum.


Sól, sunnan andvari og 19 stiga hita 17. júní?

 Veðurupplýsingar: skyjad

Ritstjórinn getur auðvitað ekki svarað þeirri spurningu sem sett er fram í fyrirsögninni hér að ofan? En líkurnar á þessu hljóta að vera töluverðar.

Veðrið í nokkrum völdum borgum var svona á hádegi í dag skv. mbl.is:

Reykjavík    SA  3    4°C 

AkureyriVeðurupplýsingar: skyjadSV  3     6°C
Egilsst.Veðurupplýsingar: thokaNA  3  2°C
LondonVeðurupplýsingar: nullNV  310°C
Veðurupplýsingar: null 
Veðurupplýsingar: null

Hver fær fyrsta dansinn?

Svana Birgis stefnir greinilega á að fá fyrsta dansinn við ritstjórann. Hún skrifar hvað eftir annað í gestabókina - sjá "Gestabók" vinstra megin á síðunni...  Verst að Svana verður ekki á landinu 16. júní. Eða var það ekki 16. júní sem ég lofaði að veita verðlaunin? Man það ekki í svipinn.

Svo er það spurning hvort það er tíundi hver sem skrifar, sem fær dans, eða sá sem skrifar tíundu hverja færslu. Vona a.m.k. að Svana skrifa næstu færslu frekar en t.d. Stebbi Sæm, með fullri virðingu fyrir Stebba - ef úrskurðað verður á þann veg að ritari tíundu hvers pistils í gestabókina fái að dansa við ritstjórann. En það fer auðvitað eftir því hvað ritstjórinn telur sér í hag hverjar reglurnar verða, enda hann dómari í þessu máli.


Gestabókin öðlast líf

Ritstjórinn kominn úr helgarfríi og leyfir sér að benda á að lifnað hefur yfir gestabókinni - sjá "Gestabók" vinstra megin á síðunni...

Svana Birgis og Dísa Jóns eru farnar að skrifast á í gestabókinni góðu, en báðar verða í útlandinu 17. júní. Dísa kemur heim 8. júlí og spyr hvort ekki megi færa Sautjándann þangað! Góð hugmynd, eða bara að halda aðra hátíð þá.

Svönu langar líka í dans við ritstjórann, skiljanlega. Og svo er það Stóra dagbókarmálið sem Dísa Jóns nefndi í pósti til árgangsins. Eru ekki örugglega allir komnir á póstlistann? Vinsamlega réttið upp hönd, þeir sem ekki fengu sendinguna frá Dísu í gærkvöldi.


Allt er breytingum háð

Lok, lok og læs

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Þar sem sum ykkar eru orðin nokkuð roskin er rétt að byrja að hamra á því strax að EKKI þýðir að gera tilraun til þess að ganga inn í Gamla skóla þar sem þið voruð vön í den tid.

Dyrnar vestanmegin inn í kjallarann eru jafnvel ekki til lengur og þær í norðaustur horninu, sem snéru þá að kaffiteríu KEA, eru harðlæstar núorðið, amk alla jafna. Kannski eru þær ólæstar þegar gamalt, vanafast fólk heimsækir skólann sinn í hópum, ég veit það ekki, en þar sem ég hugðist skoða einkunnir mínar í vikunni - sem ég gerði fastlega ráð fyrir að héngju enn á veggnum fyrir ofan tröppurnar - var harðlæst.

Nú er gengið inn í MA vistarmegin, inn í Hóla sem ... Ja, þeir sem ekki vita komast að því hvað Hólar eru, þegar nær dregur hátíðinni miklu.


Í svörtum fötum, Kiddi og Magga

Hafi einhver ekki fengið bréfið sem sent var út á dögunum, eða ekki nennt að lesa, skal eftirfarandi upplýst. 

  

  • Samið hefur verið við hljómsveitina Í svörtum fötum um að leika fyrir dansi 16. júní. Þeir Svartfatingar eru hættir að spila saman, en vegna tengsla við Akureyri og reynslu þeirra af því að spila við þetta tækifæri hafa þeir samþykkt að endurtaka leikinn. Mikil ánægja var með þá í fyrra.
 
  • Kristján Kristjánsson úr 6. A og Margrét Blöndal úr 6. G hafa samþykkt að vera veislustjórar.
 
  • Ólafur Pétur Pálsson úr 6. X ætlar að flytja hátíðarræðu 25 ára stúdenta þann 16. júní.
 

Ellin, fegurðin og ríkidæmið

Tryggvi Gíslason, okkar gamli meistari, sagði margt skynsamlegt í viðtali sem ég tók við hann og birtist í Morgunlaðinu sunnudaginn 15. júní 2003, tveimur dögum áður en hann brautskráði síðustu nemendur sína frá MA. Í viðalinu nefndi skólmeistari t.d. andstæður og samhengi hlutanna. "Stundum er sagt að fólk vilji að allt sé skemmtilegt; þess er krafist að fólk sé ungt, fallegt og ríkt. Við erum hins vegar ekki alltaf ung, við verðum gömul; það er eðlilegt að sá sem lifir lengi verði gamall.

Unga fólkið verður að muna eftir því; þó að það eigi auðvitað ekki að vera upptekið af því að það verði gamalt þá má það ekki gleyma því, og mestu menningarþjóðir, bæði austur í Asíu og jafnvel í hinni fornu Afríku, allar þessar gömlu menningarþjóðir heimsins hafa byggt á þessari grundvallarkenningu að bera virðingu fyrir þeim sem eldri eru. Því megum við ekki gleyma, finnst mér."

Hann segir erfitt að vera ungur, en þó enn erfiðara að verða gamall, lasburða, einmana og yfirgefinn "og svona menningarþjóð eins og Íslendingar mega ekki gleyma gamla fólkinu."

Ég held Tryggvi hafi ekki verið með 25 ára júbílanta  sumarið 2007 sérstaklega í huga með þessum orðum enda herma heimildir að sá árgangur sé enn bæði ungur, fallegur og ríkur. Mér finnst þó rétt að benda á ummælin ef einhver vill hefjast handa þegar í stað við að undirbúa ellina, sem hugsanlega birtist óvænt eftir að 25 ára partýinu lýkur, einhvern tíma þjóðhátíðardaginn 17. júní. 


90% mæting, eða er hún 100%?

Nú þegar hafa tíu manns tekið þátt í könnuninni hægra megin á síðunni. Níu hafa valið fyrsta kostinn - ætla "Að sjálfsögðu!" að koma á stúdentsafmælið, en einn svarar "Já". Þar sem ég er úr máladeild lít ég á þetta sem 90% mætingu. Ég gef mér hins vegar að Reynir telji mætinguna 100%.

Ég hvet fólk svo til þess að tjá sig hér á heimasíðunni. Veglegar viðurkenningar eru í boði fyrir þá sem nenna að skrifa: tíundi hver fær að launum einn dans við ritstjóra síðunnar að kvöldi 16. júní...


Vessgú: ma1982@tpostur.is

FRÉTTASKÝRING

Eftir Skapta Hallgrímsson ritstjóra

Tölvusérfræðingur heimasíðunnar, Reynir Eiríksson, hefur græjað netfang sem við getum öll notað í aðdraganda hátíðarinnar, netfangið er ma1982@tpostur.is og virkar einfaldlega þannig að ef póstur er sendur þangað á hann að skila sér til allra sem þegar eru á netfangalista okkar.

Svona er nú heimurinn skemmtilegur. Ég skrifaði Stóru ritgerðina sem svo var kölluð, en var kannski ekkert rosalega stór, á ritvél vegna þess að þá var tölvan ekki komin til Akureyrar. Og kannski ekki einu sinni til landsins, nema kannski einkatölva Háskóla Íslands sem geymd var í tveimur eða þremur herbergjum vegna þess hve stór hún var.

Guði sé lof fyrir tæknina. Og Reyni, annars hefði ég aldrei getað skrifað þessa fréttaskýringu því án hans hefði ma1982@tpostur.is ekki orðið til.


Fem og tyve!

Illskiljanlegt, en satt. Liðin eru 25 ár frá því við skoppuðum út í sumarið 82 með hvíta kolla. Því ber að fagna og það gerir auðvitað hver á sinn hátt - en (vonandi flestir) á sama stað og sama tíma. Þann 14. júní kemur hver bekksögn saman einhvers staðar í heimahúsi í höfuðstað Norðurlands, 15. júní verður farið í óvissuferð með öllu tilheyrandi og að kvöldi 16. júní verður haldin mikil veisla, eins og hefð hefur skapast fyrir, í íþróttahöllinni. Ef einhver er ekki viss þá er þessi höll stóra húsið norðan við heimavistina! Þar verðum VIÐ í aðalhlutverki enda sjá 25 ára stúdentar um herlegheitin.

Ég vona að allir séu í góðri æfingu og tilbúnir í slaginn.

Hér verða fluttar fréttir af undirbúningi hátíðarinnar og hvers konar upplýsingar, kveðskapur, gamlar sögur og eitthvað þaðan af verra, verður birt í snatri ef einhverjir vilja senda mér slíkt. Netfangið er skapti@mbl.is og svo vil ég að sem flestir skrifi athugasemdir við hvaðeina sem hér verður að finna, svo og eitthvað skemmtilegt í gestabókina.

Hvernig væri að fólk upplýsti hvað það hefur fengist við þennan fljótliðna aldarfjórðung? Hvar hafið þið verið? Hvar eruð þið? Er einhver hættur að reykja? Einhver byrjaður að reykja? Einhver fitnað, grennst, giftst? Gestabókin bíður...

Meira síðar.


« Fyrri síða

GAMAN SAMAN

Stúdentar frá MA 1982
Stúdentar frá MA 1982

Heimasíða MA stúdenta 1982, stofnuð vegna 25 ára stúdentsafmælis 17. júní 2007.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband